Hrafnkelssögudagur 2012

Laugardaginn 4.ágúst hélt félagið árlegan viðburð sem nefndur hefur verið Hrafnkelsdagur og er tileinkaður Hrafnkeli Freysgoða. Dagurinn hafði verið kynntur í nokkrum blöðum, Dagskránni og RÚV. Gestir voru aðeins um 30 að þessu sinni, nokkuð færri en undanfarin ár.

Í ár lagði rútan af stað kl.13 frá Egilsstöðum með áhugasömum gestum sem stöldruðu við á ýmsum sögulegum og spennandi stöðum þar sem atburðir sem lýstir eru í Hrafnkelssögu Freysgoða áttu sér stað. Leiðsögn Páls og Baldurs Pálssona frá Aðalbóli gerði ferðina enn skemmtilegri, en lesin voru brot úr sögunni, auk kvæða og fleira sem tengdust hverjum stað.

Stuttu eftir komu þeirra og annarra gesta á eigin bílum að Aðalbóli í Hrafnkelsdal skemmtu leikarar úr Leikfélagi Fljótsdalshéraðs með um hálfrar klukkustundar þætti um Freysgoðann á fróðlegan og skemmtilegan hátt. Síðan var gestum boðið að prófa hnefatafl, myllu og önnur spil auk glímu og hornskinnu. Einnig gafst kostur á að læra grunntök í vattarsaumi, spjaldvefnaði og að snúa saman í bönd, t.d. sem skraut fyrir víkingaklæðnað.

Næst snæddu gestir safaríka og ljúffenga Faxasteik að hætti Sáms Ferðaþjónustu ásamt meðlæti. Síðan var hellt upp á ketilkaffi og jurtate sem gestir supu á meðan þeir hlýddu á áhugaverðan fyrirlestur hjá Baldri Pálssyni Austurlandsgoða, en hann lýsti líklegum ástæðum fyrir því hvernig hluti íslensku þjóðarinnar gat haldið áfram að iðka ásatrúarsiði samhliða kristnitöku og hvernig goðaskipan hefði haft áhrif á notkun íslensks stafrófs í stað latínu.

Endað var síðan á nokkrum dönsum og leikjum og kvöddu gestir ánægðir með samveru, fræðslu og skemmtun.

Félagið færir Leikfélagi Fljótsdalshéraðs, Björk Gunnlaugsdóttur í Hvammi og Baldri Ásatrúargoða þakkir fyrir skemmtilegt og fræðandi efni sem og Sáms ferðaþjónustu fyrir veitingar og aðstöðu, en Kjötvinnsla KS og Ölgerðin styrktu félagið með kjöti og drykkjum.

Hér sjáið þið nokkrar myndir af gestum okkar þennan fagra dag í Hrafnkelsdal.

Vattarsaumur

Spjaldvefnaður

Leikfélag Fljótsdalshéraðs

Höfðingjar berjast.

Gestir taka eina bröndótta.

Austurlandsgoði fræðir nútímavíkinga um Ásatrú.

Hornskinna

Ketilkaffi og dans

Auglýsingar